Gletta/Gellivör

Það er gömul sögn að á heiðnum tímum hafi verið mikill tröllagangur á milli Borgarfjarðar eystri og Kjólsvíkur. Eru margar sagnir sem segja frá tröllskessum sem þar bjuggu, til dæmis systrunum Gríði og Glettu, sem finna má í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar. Gletta var sérlega skæð og átti til að seiða til sín skip og valda mannskaða. Var hún svo fyrirferðarmikil að byggðin lagðist í eyði um tíma. Hún hélt þá til í fjallinu Glettingi. Helgur maður var fenginn til að vígja fjallið og segja þá sumir að hún hafi flutt sig um set, en aðrir segja að hún hafi flutt vegna þess að engan mat var lengur að fá í bjarginu.

Eftir að hún hvarf úr Glettingnum varð fólk vart við að skessa hafði gert sig heimakomna í Staðarfjallinu, suður og upp frá Desjamýri í Borgarfirði. Leist bændum þar illa á blikuna. Er sú skessa ýmist kölluð Gletta eða Gellivör. Fljótlega fór að bera á því að karlmenn á bænum Hvoli, þar skammt frá, hurfu á jólanótt, fyrst bóndi og svo húskarl. Ekkjan fluttist því í burtu um tíma en ætlaði sér síðar að flytja heim á ný. Þá dreymir hana að það kemur til hennar huldukona og biður hana að gefa sér mjólk í könnu vegna þess að hún eigi börn sem þurfi mjólk. Huldukonan segir ekkjunni svo að skessan í Staðarfjalli hafi fætt barn fyrir tveimur árum sem sé svo einþykkt og sérlundað að hún verði að útvega því nýtt mannakjöt á hverjum jólum. Ef ekkjan hjálpi henni muni hún endurgjalda henni greiðann og hjálpa henni að flæma óvættina burt úr sveitinni. Ekkjan samþykkir það og setur út mjólk á hverjum degi fram að jólum. Huldukonan kemur þá aftur til hennar í draumi og segir henni að um miðnætti á jólanótt muni konan finna hjá sér löngun til að ganga út úr bænum. Þá skuli hún ekki streitast á móti heldur hlýða. Þar fyrir utan muni tröllskessan vera, hún muni taka ekkjuna upp og leggja af stað með hana til fjalla. Þegar þær séu komnar að Fjarðaránni skuli hún þykjast heyra í barni skessunnar, sem muni þá leggja hana niður og athuga með barnið, en huldukonan myndi þá kvelja það á meðan. Þá eigi ekkjan að hlaupa eins og fætur toga út á eyrarnar og suður af Votanesinu. Þar myndi skessan ná henni á ný, eftir að hafa athuga með barnið. Þegar þær kæmu að fram að Tíðarmelnum skyldi ekkjan endurtaka leikinn og nú hlaupa enn hraðar, því í þetta skiptið yrði huldukonan búin að drepa tröllsbarnið og skessan væri því brjáluð af heift.

Þegar jólanóttin rann upp fór allt eins og huldukonan hafði sagt. Á meðan hún drap barnið hljóp ekkjan eins og hún ætti lífið að leysa í kirkjuna, þar sem fullt var af fólki sem hringdi kirkjuklukkunum þegar skessan nálgaðist. Skessan snarstoppaði við kirkjugarðsvegginn svo hluti hans féll með háværum dynk og þá sagði hún: Stattu aldrei argur! Ekkjan slapp því ómeidd frá óvættinni.

Nú segja sögur enn að skessan hafi flutt sig aftur um set eftir barnsmissinn og ófarir sínar og sest að í Mjóafirði, en ekki ber nú öllum saman um að þetta sé sama skessan. Mjóafjarðarskessan seiddi til sín presta frá Firði og fór hún þá til kirkjunnar á meðan prestur var í prédikunarstólnum og veifaði hendinni utan við gluggann svo þeir trylltust og fóru með þessa vísu:

Takið úr mér svangann og langann;

Fram vil ég að gilinu ganga,

Takið úr [mér] svilin og vilin;

Fram vil ég í Mjóafjarðargilið.

Svo hlupu þeir trylltir út til skessunnar. Erfitt var orðið að fá prest til að sinna embættinu, en að lokum bauð sig fram prestur að nafni Eiríkur. Þegar hann messaði í fyrsta skipti sagði hann að ef fát kæmi á hann ættu sex menn hlaupa til og halda sér föstum, aðrir sex menn ættu að hringja kirkjuklukkunum og tíu halda hurðinni. Birtist skessan svo á glugganum og byrjaði að seiða Eirík til sín, en tókst mönnunum ætlunarverk sitt og flúði hún aftur til fjalla. Eftir þetta hættu prestarnir að hverfa úr kirkjunni og segja sögur að skessan hafi flutt sig enn á ný.

Previous
Previous

Nípa

Next
Next

Ketillaug